145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræddum í dag á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna m.a. um fjárhagsleg samskipti. Mig langar að byrja á að segja almennt um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að þau voru nokkuð stirð á árunum eftir hrunið, kannski var það að einhverju leyti fyrirséð, vegna þess að bæði þessi stig þurftu að skera niður og halda mjög að sér höndum. Miklar aðhaldskröfur voru gerðar í ríkisrekstrinum og kann að vera að það hafi smitast yfir á samskipti ríkis og sveitarfélaga þannig að mál fóru í frost eða þokuðust lítt áfram sem hefðu þurft að hafa framgang í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Eftir því sem efnahagslífið hefur tekið við sér og staða ríkissjóðs batnað hefur okkur tekist að ná nokkrum stórum áföngum. Ég ætla fyrst að nefna samkomulag við sveitarfélögin á grundvelli laga um opinber fjármál þar sem við fellum í farveg vinnu við að móta stefnu til framtíðar, setjum fjármálastefnu fyrir hið opinbera, ríki og sveitarfélög, setjum okkur markmið. Nú erum við að vinna með markmið um 1% afgang sem er borinn uppi af ríkinu. Við gerum sem sagt ekki kröfu um að sveitarstjórnarstigið skili miklu inn í afkomu hins opinbera á næstu árum, við gerum ráð fyrir að sveitarstjórnarstigið verði meira eða minna rekið í járnum á næstunni. Þetta er til vitnis um breytt verklag og skapar mikil tækifæri. Árlega verður gerður samningur milli ríkis og sveitarfélaga um þessi efni.

Hér hefur verið komið inn á nokkur sértæk mál, bankaskatturinn nefndur sérstaklega. Já, skaði er af því að það mál skyldi ekki þegar hafa fengið afgreiðslu á þinginu. Ég hef stutt málið í þeim búningi sem það var lagt fyrir þingið, meira ætla ég ekki að segja um það mál.

Varðandi séreignarsparnaðarleiðina hafa komið athugasemdir frá sveitarstjórnarstiginu um að þar hafi orðið tekjutap. Ég held að segja megi að fyrstu hugmyndir, bæði okkar hér á þinginu, eða meiri hlutans a.m.k., sem og sveitarstjórnarstigsins, um það tekjutap sem af þeirri leið mundi leiða hafi verið dálítið bólgnar vegna þess að þátttakan í því úrræði er nokkru minni en við gerðum ráð fyrir í frumvarpinu. Þó er hún veruleg, á fjórða tug þúsunda heimila nýta þá leið. Mér finnst sjálfsagt að það sé tekið með inn í samskipti ríkis og sveitarfélaga um þessi mál.

Það er kannski hægt að segja almennt um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna að það sem einkennir stöðuna er hversu misjöfn hún er frá einum stað til annars. Sum eru ágætlega stödd, önnur eru mun verr stödd. Athygli okkar hefur kannski mest beinst að þeim sem eru illa stödd og það hefur mögulega tafið fyrir framgangi mála sem varða stærri og öflugri sveitarfélögin. Við höfum þó tekið stór skref. Ég nefni tilflutning á málefnum fatlaðra, sem mér finnst hafa tekist heilt yfir ágætlega. Ég ætla líka að nefna nýgert samkomulag sem er grunnur að rammasamkomulagi um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila sem byggja á daggjaldagrunni. Við erum að leggja 1,5 milljarða inn í fjáraukalagafrumvarpið sem var lagt fram á þinginu í gær til að fylgja eftir því samkomulagi. Það skiptir verulega miklu máli fyrir mörg sveitarfélög sem eiga aðild að því samkomulagi.

Síðan vil ég segja varðandi ferðaþjónustu í landinu að það sem hefur helst skort á er að við gerum okkur betur grein fyrir því hvaða útgjöld það eru, hvaða kostnaður það er sem leggst á hin einstöku sveitarfélög. Við þurfum að taka þá umræðu heilt yfir. Enginn vafi er að sveitarfélögin njóta góðs af aukinni komu ferðamanna til landsins. Það birtist meðal annars í útsvari, það eru að verða til störf í ferðaþjónustu sem skila sér með auknum útsvarstekjum. Sama gildir með nýbyggingar. Ég sagði á þinginu í morgun að kranarnir sem við sjáum hérna og tengjast hótelbyggingum, eru auðvitað ávísun á fasteignagjöld í framtíðinni, allar þær byggingar. Sömuleiðis skila auknar tekjur ríkissjóðs sér með vissum hætti til sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóð.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það eru sum svæði, sérstaklega þessi fámennu landstóru sveitarfélög, sem þarf sérstaklega að horfa til. Við höfum verið að setja fjármuni inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á undanförnum árum, m.a. til þess að þau sveitarfélög (Forseti hringir.) gætu sótt um styrki til þess að byggja upp innviði. Það var mikilvægt í því samhengi að við skyldum lækka mótframlagshlutfallið (Forseti hringir.) niður í 20%, það léttir mönnum að sækja styrki í þann sjóð.