145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er þörf umræða sem hér fer fram og ber að þakka hv. framsögumanni fyrir að hefja hana. Mér finnst stundum eins og umræðan um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé ekkert óáþekk því og þegar framhaldsskólinn talar til grunnskólans um að vart sé hægt að treysta þeim tölum sem koma úr grunnskólanum þegar færa á börn yfir í framhaldsskóla. Það er einhvern veginn svona: Þið gerið hlutina ekki nógu vel. Við gerum hlutina betur og þið þurfið að fara að vanda ykkur.

Það er kannski pínulítið þannig sem mér finnst oft að við nálgumst þetta verkefni, fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Í stað þess að horfa til þess að við erum hér með tvö stjórnsýslustig sem í raun ættu að vera jafn rétthá ef út í það er farið og í allri umræðu, og að borin sé virðing, jafnt í þessum sal sem annars staðar, fyrir þessum stigum hvoru fyrir sig.

Það er hins vegar ljóst að tækifæri sveitarfélaga til að auka tekjur sínar er ekki á mörgum vígstöðvum, óáþekkt því sem gerist þó hjá ríki sem getur lagt skatta á ýmis verkefni eða ýmsa þætti sem skila sér í ríkissjóð en fara svo kannski ekki mikið lengra.

Í mínum huga þarf, og ég tala hér sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, að huga að þessari skiptingu með öðrum hætti en við gerum í dag. Við þurfum á einn eða annan hátt að auka tekjustofna sveitarfélaga. Ég sé það m.a. gerast með skatttekjum af umferðinni, af bensíngjaldi, því að bílar aka jafnt um sveitarfélög sem um vegi sem ríkið leggur.

Í öðru lagi langar mig að segja um þennan fasteignaskatt sem margir tala um að ég er einn þeirra sveitarstjórnarmanna sem finnst að það eigi að afleggja hann. Þetta er ekkert annað en eignarskattur á það sem maður á í sveitarfélagi sínu, (Forseti hringir.) á hús sem maður hefur byggt og unnið fyrir sjálfur. Maður getur jú leigt lóðina (Forseti hringir.) af sveitarfélaginu en að vera endalaust að vera að borga skatt af því sem maður hefur sjálfur eignast er fáránlegt.