145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka góða umræðu og gagnlega og hæstv. ráðherra fyrir svörin í fyrri umferð.

Mig langar til að varpa fram nokkrum spurningum hér undir lokin og reyna að vera svolítið markviss í því. Mig langar að spyrja í fyrsta lagi: Eigum við sem samfélag að gera gangskör að því að fækka sveitarfélögum á Íslandi, þ.e. sameina sveitarfélögin með markvissum hætti? Þá er ég að tala um í samstarfi við þau sjálf. Er þetta viðfangsefni sem við verðum að fara í í ljósi þess hversu stór og umfangsmikil verkefnin eru og ekki síður kannski á sviði umhverfismála, skipulagsmála, alls konar tæknilegra ferla sem eru mjög flóknir fyrir sveitarfélögin? Auðvitað hafa mörg sveitarfélög verið í samstarfi um slík verkefni sem og önnur verkefni. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það sé einhver stefna, hvort þetta hafi verið rætt sérstaklega í ríkisstjórninni. Ég átta mig á því að þetta fellur kannski frekar undir annan fagmálaflokk en við erum að nálgast kosningar þannig að kannski getum við breikkað þá umræðu. Þetta er hluti af þessum fjármálalegu samskiptum.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort það hafi komið til álita sem er viðhaft í einhverjum norrænu ríkjanna, a.m.k. í Danmörku, þ.e. að sveitarfélögin sjálf séu undanþegin því að greiða virðisaukaskatt vegna starfsemi sinnar. Mér er ekki ljóst í sjálfu sér hversu stórar upphæðir eru þarna undir, en þetta væri eitthvað sem væri hægt að skoða og ég spyr ráðherrann hvort það hafi verið gert.

Í þriðja lagi vil ég biðja hann að reyna að svara mér konkret hvað hægt sé að gera fyrir höfuðborgarsvæðið sérstaklega vegna ferðamannastraumsins. Hér erum við með mikið álag, til að mynda í Kvosinni, vegna mikillar og vaxandi umferðar. Einhverjir hafa rætt um skipt útsvar vegna árstíðasveiflu, ég vil spyrja hann hvort það sé eitthvað sem hann hafi (Forseti hringir.) skoðað sérstaklega. Að lokum vil ég spyrja hann um beina aðkomu að endurskoðuðu og hækkuðu gistináttagjaldi, hvort það komi til álita að skipta því þannig að eitthvað af því renni til sveitarfélaganna.