145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fundur í fastanefnd á þingfundartíma.

[14:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það þarf að liggja alveg skýrt fyrir hvort forseti er hér að fresta fundi áfram eða ekki. Ef fundur er enn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tel ég öldungis ófært að halda fundi hér áfram. Það hefur aldrei verið siðvenja í þinginu að á sama tíma og fundur er í þingnefndum hafi menn líka áfram fundi á þinginu.

Síðan vil ég segja algjörlega skýrt að mér hefur borist til eyrna að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ekki að finna Björgu Thorarensen stjórnskipunarfræðing sem fundurinn var sérstaklega haldinn til að heyra í. Mér er sagt að þar sé einungis Skúli Magnússon en það er fullkomlega ófært ef fundurinn snýst um að heyra skoðanir hans. Skúli Magnússon, afrendur að fræðimannsburðum sem hann er, er hins vegar höfundur þeirrar lausnar sem stjórnskipunarfræðingurinn sem ég nefndi áðan hefur sagt að sé ekki nægilega góð. Menn fara ekki og spyrja þann spjörunum úr sem er höfundur að lausn sem er talin ótæk. Þetta vildi ég að kæmi alveg skýrt fram. Fundur sem er haldinn af slíku tilefni verður ekki til þess að lægja hér öldur.