145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar, vegna þess að lífeyrir fólks er framfærsla fólks og er þess vegna svo gríðarlega mikilvæg, þá verðum við að huga að því hvað áhrifin á einum stað komi mögulega til með að gera á öðrum stað. Ég tel þess vegna mikilvægt að þetta sé skoðað í heildarsamhengi. Þó svo að auðvitað sé hægt að vona að fólk vinni sér góðan lífeyri yfir starfsævina er veruleikinn hins vegar sá að fólk lendir í alls konar aðstæðum yfir ævina og þá kemur auðvitað til kasta ríkisins. Þess vegna skiptir þetta máli.

Í báðum kerfum er um að ræða sveigjanleg starfslok, möguleiki á sveigjanleika í því. Ég er mjög hlynnt því prinsippi. Þess vegna tel ég alveg óskaplega brýnt (Forseti hringir.) að farið verði í að reyna að greina eftir bestu getu hvert samspilið er þarna á milli. Það er jú framfærsla fólks sem við erum með í höndunum í þessum málum.