145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við nálgumst umræðu um þessi tvö kerfi, almenna og opinbera lífeyrissjóðakerfið annars vegar og síðan almannatryggingakerfið hins vegar, út frá því að þetta eru í hvoru tveggja tilvikinu réttindakerfi. Við erum sem sagt að tala um réttinn til þess að fara á lífeyri 67 ára eftir að hafa byggt upp ákveðin réttindi í millitíðinni. Við erum ekki að tala um skylduna til að fara á lífeyri 67 ára, við erum að tala um það að sá sem vinnur fulla starfsævi eigi rétt á að hefja töku lífeyris við tiltekið aldursmark. Síðan getur fólk valið að starfa lengur eftir atvikum, hvort sem er í opinbera geiranum eða á almennum markaði.

Ég veit ekki hvort ég er að misskilja eitthvað hér, en mér finnst ekki sjálfgefið að þó að við setjum rétt til að hefja töku lífeyris í lífeyristryggingakerfinu við 67 ára aldursmarkið þurfum við nauðsynlega að hafa réttinn til töku (Forseti hringir.) ellilífeyris samkvæmt almannatryggingum á því sama ári.