145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki um það segja. En kannski er einhver misskilningur hér á ferð. Þegar rætt er um skuldabréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna er verið að ræða um kröfu ríkisins á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er ekki verið að tala um kröfur lánasjóðsins á hendur nemendum vegna lána sem nemendur hafi tekið hjá sjóðnum. Það er hvor sinn hluturinn. Hérna er einfaldlega um að ræða að ríkið á kröfu á lánasjóðinn vegna fjárhagslegra samskipta þessa sjóðs sem lögaðila og ríkisins. Hann hefur fjármagnað sig með verðtryggðum bréfum sem bera nokkuð góða vexti og gætu talist heppileg eign fyrir lífeyrissjóðina og á sama tíma ágætiseign til að ráðstafa í þessu samhengi vegna þess að þeir fjármunir eru þá áfram bundnir í bréfunum en fara ekki út til þess að valda einhverri þenslu.