145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki upplýsingar um það hversu margir í A-deildinni greiða viðbótarlífeyrissparnað. Það er hugsanlegt að hægt sé að nálgast þær í nefndarstarfi. Varðandi 3,5% er það þannig að þegar horft er til baka hefur það gengið ágætlega upp hjá lífeyrissjóðunum að starfa á grundvelli þeirrar reiknireglu. Það er í fyrsta lagi ekki verið að breyta neinu varðandi þann útreikning eða þær forsendur í frumvarpinu. En svarið við því hvort við getum byggt á útreikningum sem gefa sér 3,5% ávöxtun til frambúðar liggur í raun í því hvort við getum viðhaldið hér að minnsta kosti 3,5% hagvexti um ókomna tíð. Það er alveg ástæða til að velta því fyrir sér. Menn eiga ekki að gefa sér neitt í þeim efnum um alla framtíð.