145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og lesa má í greinargerð með frumvarpinu er þetta áfram til skoðunar á vissan hátt. Það er orðað þannig í greinargerðinni: „Af vaxtaberandi eignum ríkissjóðs sem unnt væri að nýta sem framlag til lífeyrisaukasjóðs LSR hefur helst komið til skoðunar að framselja hluta af endurlánum ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).“

En í grunninn hefur verið hugsað um þetta þannig að ríkið væri í færum til að lækka lausafjárstöðu sína hjá Seðlabankanum sem næmi um einum þriðja af framlaginu. Eignir á borð við þá sem hér er nefnd gætu komið til álita sem næsti þriðjungur, og svo lokaþriðjungurinn með útgáfu nýrra skuldabréfa. En ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir miklu hér að þetta verði ekki til þess að valda þensluáhrifum. Tekist hefur ágætissamtal um það við LSR og er gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess. (Forseti hringir.) Þess er að vænta að endanlegur frágangur þessa máls verði í þeim búningi að slík skaðleg áhrif verði lágmörkuð.