145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á að ræða einmitt þennan þátt málsins ekki bara í tengslum við þetta frumvarp heldur í stærra samhengi hlutanna og tel að það hafi opnast tækifæri fyrir okkur Íslendinga vegna þeirra breytinga sem eru að verða á samsetningu hagkerfisins. Ör vöxtur ferðaþjónustunnar skilar miklum gjaldeyristekjum inn í landið, sem aftur getur opnað dyrnar fyrir okkur gagnvart útlöndum fyrir erlendar fjárfestingar. Miklar fjárfestingar í útlöndum af hálfu lífeyrissjóðakerfisins án innstreymis gjaldeyris á sama tíma gætu sett mjög mikinn þrýsting á gjaldmiðilinn. Án gjaldeyrisskapandi greina væri í raun og veru tómt mál að tala um miklar erlendar fjárfestingar þessara sjóða. Þar sem gjaldeyrisinnstreymið er svona ört vaxandi virðast okkur vera að opnast nýjar dyr í þessum efnum. Það er meira en full ástæða fyrir okkur til að fara að taka til gaumgæfilegrar skoðunar greiðslujafnaðarmódel Íslands fram á við litið, hversu langt við eigum að ganga á sama tíma og við tryggjum sterka stöðu útflutningsgreinanna í því að nánast setja lágmark á erlenda (Forseti hringir.) fjárfestingu lífeyrissjóðanna í stað þess að vera velta fyrir okkur hvert hámarkið er.