145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:09]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, hvað þá fjárlaganefnd, og vil bara segja til að byrja með að lífeyrismál, lífeyrissjóðir og skuldbindingar eru ekki mín sterkasta hlið. Mér finnst mikilvægt að setja mig inn í þetta mál af því að það er risastórt og skiptir miklu máli. Ég er ánægð með að það sé komin niðurstaða, komin víðtæk sátt að því er virðist í það hvernig við höggvum á þennan hnút eða leysum það að lífeyrisskuldbindingar okkar, þau kerfi eru ekki sjálfbær. Það hefur verið að safnast upp halli sem menn hafa ekki séð fyrir endann á en núna er komin tillaga til að breyta kerfum og borga inn á þannig að við getum farið að færa þetta í þá átt að við munum ekki búa við þessa stöðu um aldur og ævi. Það er í sjálfu sér mjög jákvætt og ég vona að við fáum nægan tíma til þess að kafa almennilega ofan í málið því að það er sannarlega þörf á því. Ég mun hlusta með andakt á það hvað aðrir reyndari þingmenn hafa að segja um þetta mál, mér finnst mikilvægt að við gerum þetta vel.

Það er mikilvægt að við séum ekki eingöngu núna að greiða inn í þetta ósjálfbæra kerfi og laga það heldur að við búum líka svo um hnútana að við þurfum ekki að fara að gera það aftur eftir einhver ár, 20–30 ár. Auðvitað eru ákveðin tímamörk á SALEK-samkomulaginu sem hér liggur undir en þó ekki knappari tímamörk en svo að það er í a.m.k. ár í viðbót, ef ekki lengur. 2018 minnir mig.

Við þurfum að athuga hvort þessar kerfisbreytingar haldi og ef ekki þurfum við að búa svo um hnútana að þær geri það. Það gengur auðvitað ekki að við séum alltaf á einhverra ára fresti að borga inn á þetta.

Við þurfum að athuga hvort ákveðnir hópar koma verr út úr þessum breytingum en aðrir. Mér skilst að verið sé að gera þá breytingu að fara yfir í aldurstengda ávinnslu lífeyrisréttinda hjá opinberu sjóðunum og þá spyr ég mig hvort það skapi áhættu á verðminni réttindum þeirra langskólagengnu af því að þeir koma seinna út á atvinnumarkaðinn. Oft eru það konur. Við vitum að konur eru langskólagengnari, þær eru meiri hluti nemenda í háskóla. Þær koma þá síðar út á atvinnumarkaðinn því að þær eru að fjárfesta í sinni menntun, og hvað? Eiga þær þá minni lífeyrisréttindi fyrir vikið? Mér þætti vænt um að þetta væri skoðað sérstaklega í fjárlaganefnd sem fer yfir málið og hún skoði heilt yfir hvaða hópar það gætu verið sem eru kannski viðkvæmir fyrir þessari breytingu. Auðvitað þurfum við að passa að gæta jafnræðis.

Varðandi lífeyrissjóðina þá heyrði ég að hæstv. fjármálaráðherra kom aðeins inn á, þegar hann svaraði hér andsvari, fjárfestingu lífeyrissjóðanna erlendis. Þar nefndi hann að það væri dálítið erfitt upp á stöðugleika gjaldmiðla, það mætti ekki vera of mikið útstreymi úr landinu af fjármagni. Í fullkomnu kerfi, kerfi þar sem við værum ekki með lítinn gjaldmiðil sem er viðkvæmur fyrir sveiflum á inn- og útflæði, væri kannski best að mínu mati að hafa þær fjárfestingar hvað mest erlendis til að eiga þar eins konar varasjóð ef allt um þrýtur á Íslandi eins og hefur gerst. Þá ætti stór hluti landsmanna og allir varasjóði í erlendri mynt. Efnahagsumhverfið erlendis hefur verið stöðugra en það sem við búum við á Íslandi og þá væri ágætt að hafa einhvern part af sparnaði okkar í þannig kerfi.

Eins er það þannig með alla þessa lífeyrissjóði á Íslandi að þeir eru margir og misgóðir, ef við getum sagt sem svo, maður getur kannski lent í því að borga í einhvern ákveðinn lífeyrissjóð, sem er auðvitað lögbundið en maður getur ákveðið hvaða sjóður það er, en svo kemur kannski seinna meir í ljós þegar maður er að fara að taka út réttindi sín að sá sjóður er frekar rýr út af einhverju, kannski af því að það eru margir öryrkjar í þeim sjóði, það eru kannski heilu stéttirnar sem vinna slítandi vinnu og missa starfsþrek, fara á örorku og þá skilst mér að maður eigi einhvern veginn sjálfur líka, af því að tekið er úr sameiginlegum sjóði, minna á milli handanna. Ég held að það sé mikilvægt að við förum kannski aðeins að hugsa um það að stækka þessa sjóði, minnka áhættuna með því að vera með fjárfestinguna meira erlendis. Auðvitað höfum við ekki getað gert það hingað til út af gjaldeyrishöftum og öllu því, en núna erum við vonandi að horfa fram á veginn hvað það varðar.

Annað í þessu er að smæðin á Íslandi gerir það að verkum að þeir sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða eru líka oft þeir sem eiga fyrirtæki og bera hag þeirra fyrirtækja fyrir brjósti. Þeir þurfa kannski að standa í því að taka ákvarðanir um hvar eigi að fjárfesta og þá er mjög vont og býður upp á spillingu og líka tortryggni að heilu lífeyrissjóðir landsmanna séu að fjárfesta í fyrirtækjum tengdra aðila hjá stjórnum lífeyrissjóðanna. Það gengur ekki upp. Smæð landsins býður kannski samt ekki upp á annað þannig að ég held að við þurfum að fara að hugsa um að koma þessu dálítið í annan form, hafa meira erlendis.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið, ég hlakka bara til þess að hlusta á umræðuna og ég hlakka til að heyra vangaveltur þingmanna um hvað verði að skoða sérstaklega. Ég hef sagt og stend við það að mér finnst mikilvægt að við vinnum vel í þessu máli. Það á ekki að gera með einhverri skemmri skírn og ef við þurfum að vera einhvern tíma að því gerum við það bara. Við erum til þess kosin og þá gerum við það.