145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er enn þá svolítið að reyna að koma mér inn í þetta mál. Það er nú þannig á þessu þingi þessa dagana að hent er inn fleiri og fleiri stórum málum, eins kjánalegt og það nú er.

Ég velti fyrir mér tvennu í sambandi við þetta. Nú höfum við í hv. velferðarnefnd, þar sem hv. þingmaður er formaður, verið að ræða almannatryggingamálið og komið hefur í ljós að þar er fleira sem þyrfti að ræða en í rauninni var augljóst alveg í blábyrjun málsins, þ.e. þegar það fór til nefndar eftir 1. umr. var ljóst á nefndarfundum að það þyrfti að ræða meira. Ég er orðinn heldur svartsýnn á að við náum því í þessari tilraun nema menn ætli að fara að breyta starfsáætlun með tilheyrandi brölti, sérstaklega þegar við erum svona nálægt kosningum, þá er það náttúrlega erfiðara en venjulega mundi ég halda. Þetta mál virðist vera stærra í fljótu bragði.

Mig langar svolítið að reyna að skilja, ef hægt er að útskýra það með einhverjum einföldum hætti, stærðarhlutfallið eða samhengi þessara tveggja mála. Mér þykir augljóst strax að við komum til með að ræða þetta mál að einhverju leyti þegar kemur að almannatryggingamálinu og svo væntanlega öfugt. Þó fer þetta mál til fjárlaganefndar samkvæmt ræðu hæstv. ráðherra. Ég velti fyrir mér málsmeðferðinni og stærðinni og hvernig við reynum að komast yfir þetta mál þannig að sem best fari.

Fyrst og fremst langar mig að spyrja hv. þingmann, sem ég treysti vel til að hafa rétta hagsmuni í húfi þegar kemur að þessum málaflokki: Telur hv. þingmaður að þetta frumvarp leysi vandann sem að steðjar? Er þetta lausnin? Eða er líklegt að fleiri mál þurfi seinna til að greiða úr þessu? Ég er sjálfur svolítið þannig að ég trúi ekki á ókeypis peninga, alla vega ekki í einfaldri mynd, en mér er óljóst hvort þetta sé lausnin sem að (Forseti hringir.) er stefnt eða hvort þetta sé skref í átt að einhverri lausn sem við erum ekki alveg búin að finna út úr enn þá.