145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist á öllu að þetta væri skref í rétta átt og virðist ekki vera umdeilt. Þá velti ég fyrir mér öðru sem er staðreynd, ef við ímyndum okkur þetta einfalt, almannatryggingamálið fór til hv. velferðarnefndar, þetta mál fer til hv. fjárlaganefndar. Ég geri fastlega ráð fyrir að ástæðan fyrir því að málin fari í tvær mismunandi nefndir sé sú að hér sé verið að eiga við fjármálalegar undirstöður þess hvernig kerfið verði fjármagnað, á meðan við ræðum réttindi notenda í almannatryggingamálinu.

Ég fæ ekki séð í fljótu bragði, með öllum fyrirvörum um að ég er enn að kynna mér málið og þekki þessa hluti ekki mjög vel, hvort þetta hafi einhver áhrif á notendur eða hvort það komi til með að hafa einhverjar afleiðingar sem ýmist kæmu niður á réttindum notenda eða væru réttindum þeirra til bóta. Mér er það óljóst. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað frætt mig um það. Þetta virðist nefnilega ef maður lítur á þetta í samanburðarskjali þá er svolítið mikið tekið út og svolítið mikið sett inn.

Mér er alltaf óljóst í þessum málum í fljótu bragði hvaða áhrif það hefur á raunveruleg réttindi til framtíðar. Þegar um er að ræða breytingar í þessum málaflokki virðist vera tilhneiging til að gera breytingar sem hafa ófyrirséðar afleiðingar á réttindi notenda, eitthvað sem er ekki alveg ljóst þegar frumvörpin eru samin. Vissulega erum við viðbúin þessum vandamálum þegar kemur að almannatryggingamálinu og þeim hluta málaflokksins, en mér er það ekki ljóst þegar kemur að þessum hluta, þ.e. þessum fjármálalega, fjárlagalega eða þeim þætti sem varða fjármálin og rekstrarstöðuna og allt það. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig eitthvað um það.