145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hennar ræðu. Eins og efni máls standa til, þetta er mjög yfirgripsmikið mál, þá kom hún víða við í ræðu sinni enda annað nálega óumflýjanlegt.

Mig langar að halda áfram þaðan sem frá var horfið í síðasta andsvari og einnig um það sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, en það er um samspil þessara ólíku kerfa sem saman halda utan um lífeyri fólks, sem er auðvitað alveg gríðarlega mikilvægt mál því að þetta er framfærsla fólks. Ég er þess vegna sammála hv. þingmanni um að við verðum að vanda mjög til verka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að það verði að rýna þessi tvö mál saman, því að líkt og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni verður að skoða þetta með kynslóðagleraugum en einnig kynjagleraugum. Hún hefndi stórar kvennastéttir, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Það er einmitt í þessum stóru kvennastéttum sem nýgengi örorku er hvað hæst, hjá konum sem fara á örorku rétt áður en kemur að lífeyrisaldri. Ég spyr hvort við verðum ekki að skoða þetta samspil milli örorku, lífeyris og breytinga á lífeyrisaldri. Hvort við verðum ekki að nálgast þetta heildstætt og hvort okkur beri ekki í raun skylda til þess.