145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er frekar jákvæð gagnvart þessu máli. Mér hefur fundist mjög mikilvægt að búið væri til eitt samræmt lífeyriskerfi þar sem almenni markaðurinn og opinberi markaðurinn sætu við sama borð. En það er alveg ljóst að það eru ýmsar áskoranir hérna og þetta mál þarf að fá góða umfjöllun.

Eitt af því sem talað er um er að það eigi að jafna launakjör á milli opinbera og almenna markaðarins. Það er auðvitað mjög mikilvægt þegar við erum að búa til samræmt lífeyrissjóðakerfi. En það er á sama tíma mjög flókið verkefni. Laun og kjör eru kannski ekki alveg sami hluturinn. Við erum með stórar stéttir sem eru í raun bara hjá hinu opinbera og þar af leiðandi er erfitt að bera þær saman við eða finna sambærilegar stéttir á almenna markaðnum. Þetta eru gjarnan stórar kvennastéttir. Eins og hefur verið komið inn á í fyrri ræðum hefur okkur tekist illa að jafna launamun kynjanna, eiginlega alveg ótrúlega illa. Þá getur maður nú ímyndað sér hvað þetta gæti orðið flókið. En við erum líka með alls konar réttindi hjá sumum opinberum stéttum, ákveðin réttindi sem flokkast sem launakjör, getum við sagt, þó að það séu ekki beinlínis peningar í vasann. Hvernig á að reikna það út, t.d. það að geta farið í námsleyfi? Atvinnuöryggi er líka annað sem sumar stéttir búa við að miklu leyti en aðrar alls ekki. Ákveðin stétt hjá hinu opinbera hefur t.d. tök á því að fá leyfi frá störfum í ákveðinn tíma, jafnvel til að sinna þingstörfum eða einhverju öðru. Aðrar stéttir hafa það ekki. Þetta er meiri háttar flókið mál.

Ég væri mjög fylgjandi því ef menn mundu virkilega fara í þá vinnu að jafna launakjör því að það á ekki að skipta máli hvort fólk er á almennum markaði eða hjá hinu opinbera og að laun verði kannski einfaldari og þar af leiðandi auðveldara að bera þau saman. Það er stundum verið að flækja málin og í kjarasamningum eru jafnvel stéttir, í staðinn fyrir að semja um að hækka launin, að semja um aðra þætti. Þegar við ætlum síðan að jafna þennan mun getur það reynst verulega flókið. Ég held að það sé líka tækifæri til að fara aðeins í gegnum þetta og minnka kannski flækjustigið. Í einhverjum tilfellum hafa t.d. stéttir samið um það við hið opinbera að fá einfaldlega betri lífeyrisréttindi. Þá erum við hreinlega að velta boltanum inn í framtíðina.

Ástæðan fyrir því að ég er mjög hlynnt þessu er fyrst og fremst sú að við erum að búa til kerfi sem er sjálfbært. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að segja að það geti ekki verið einhverjar hindranir í vegi. Ég sá t.d. að bent var á að breyting yfir í aldurstengdar áherslur réttinda gæti komið niður á langskólagengnum og þá kannski frekar konum. Það eru alls konar svona þættir sem við þurfum að horfa til.

En það sem skiptir máli er að búa til sjálfbært kerfi þar sem sérstaklega hið opinbera veitir ekki meiri þjónustu en það hefur efni á á hverjum tíma, að það verði ekkert til sem heiti að ýta vandanum inn í framtíðina. Við vitum hvernig staðan er með t.d. B-deildina og A-deildina sem átti að vera sjálfbær en er það nú ekki alveg. B-deildin er þannig að ef ekkert yrði gert færu að falla árið 2030 margir milljarðar á ríkissjóð á hverju ári til að standa undir þeirri ábyrgð sem þar er. Það er mikill ábyrgðarhluti af okkur að takast ekki á við vandamálin hér og nú og það er það sem mér sýnist menn vera að reyna að gera hér.

Ég ætla því að fara í þessa vinnu þokkalega bjartsýn. Það er mikil vinna sem hefur farið fram. Maður hefur heyrt að einstaka stéttir séu ósáttar og ég þarf að kynna mér það nánar, enda fer þetta mál væntanlega til fjárlaganefndar og við erum bara að ræða það í 1. umr., maður hefur t.d. heyrt það með lögreglumenn og -konur. Ég hef reyndar samúð með þeirri stétt sem hefur samið frá sér verkfallsréttinn en virðist ekki njóta þess síðan í kjörum. Það er margt sem þarf að taka tillit til, það er ljóst.

Hins vegar liggur fyrir að breytingin mun koma misjafnlega út fyrir fólk. Við fengum dæmi um það. Ég vona að þegar við förum að ræða málin fáum við dæmi um hvernig þetta getur komið út fyrir ýmsa hópa. Dæmið sem var nefnt þegar við fengum kynningu á þessu var t.d. að það er munur á því hvort starfsmaður sem fer út á vinnumarkaðinn byrjar hjá hinu opinbera og færir sig svo yfir á almenna markaðinn eftir fertugt eða byrjar á almenna markaðnum og fer yfir í opinbera geirann um fertugt. Þá vinnur viðkomandi sér inn miklu betri réttindi eins og staðan er í dag. Ég held að við eigum að passa að það sé ekkert í kerfinu sem geri að verkum að fólk festist einhvers staðar. Við viljum auka sveigjanleika þannig að fólk geti farið á milli, frá hinu opinbera yfir á almenna markaðinn og aftur til hins opinbera eða hvernig sem það er, og tapi aldrei réttindum á því. Mér finnst það algert grundvallaratriði. Svo þekkjum við það örugglega mörg í kringum okkur að ef lífeyrissjóðir sem eru á almenna markaðnum fjárfesta illa eða lenda einhvern veginn illa í því bitnar það á sjóðfélögum. Það er fullkomlega eðlilegt að fólki sem er á almenna markaðnum finnist það óréttlátt. Það er ekki eins og sjóðfélagi hafi einhver stórkostleg áhrif á hvað er að gerast í lífeyrissjóðunum. Ég þekki dæmi um lífeyrissjóð þar sem hámenntað fólk hefur valist í stjórnir og lífeyrissjóðirnir fóru eiginlega á hausinn í hruninu. Þá sitja sjóðfélagar uppi með tjónið og ríkið bætir það ekkert, ólíkt því sem gerist í opinbera geiranum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri og mun fylgja málinu eftir og skoða það í fjárlaganefnd. Tíminn er knappur. Samkvæmt starfsáætlun á þingi að ljúka í næstu viku. Mér finnst það mjög bagalegt hve mörg mál, mörg góð mál, eru að koma inn á þessum síðustu dögum. En ég ætla að leyfa mér að trúa því að þó að þau mörg hver klárist ekki verði tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið þegar ný stjórn tekur við, vonandi í nóvember.