145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur óneitanlega talsvert meira vit á þessu máli en ég. Ég hef afskaplega lítið vit á þessum hluta en á vonandi eftir að gefa mér meiri tíma til þess að kynna mér það áður en það er afgreitt endanlega. En ég verð að segja eins og er að þegar kemur að þessum málaflokki snúast áhyggjur mínar um hvernig hann skarast við annað mál sem er almannatryggingamálið. Hv. 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður sagði áðan að það væri aðallega hvað varðaði lífeyristökualdurinn. En eins og fram kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra fer málið til hv. fjárlaganefndar en ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd. Við erum að vísu með áheyrnarfulltrúa í fjárlaganefnd án atkvæðisréttar. Ég verð að segja eins og er að mér hefði þótt betra að málið færi til velferðarnefndar ef ég ætlaði að fara að tileinka mér djúpstæðan skilning á því. Ég hef smávægilegar áhyggjur af því að þessi mál fari svolítið vítt og breitt inni á þinginu og séu ekki rædd á sama sviði. Þá missum við kannski af einhverju samhengi sem gæti verið mikilvægt. Oft kemur það ekkert upp fyrr en við nefndarstörfin sjálf, þá kemur kannski í ljós að málin skarast að einhverju leyti og það jafnvel mikilvægu.

Það hræddi mig pínulítið í ræðu hv. þingmanns þegar hún sagði að þetta kæmi einhvern veginn misjafnlega niður á fólki eða væri hætt við því. Nefndi hv. þingmaður lögreglumenn í því sambandi. Það vekur mér pínulítinn ugg. Mér finnst mikilvægt að allt komi fram sem þarf að koma fram um á hverjum þetta gæti bitnað ef það liggur fyrir nú þegar. Það er annað sem ég veit ekki. Ég þigg með þökkum allt sem hv. þingmaður getur frætt okkur um í því efni.