145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður segir, sem er ábyggilega rétt og hefur verið margsagt í dag, að þetta hafi verið unnið í mörg ár og sé samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins. Samt snertir þetta fyrst og fremst lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna og síðan á einhvern veginn að reyna að jafna launakjörin hjá ríkinu, hjá hinu opinbera, og á almenna vinnumarkaðnum. En svo eigum við sem munum bera hina endanlegu ábyrgð að afgreiða þetta á einni viku. Nú er oft borið saman starfið hér á Alþingi okkar Íslendinga og til dæmis starfsvenjur í nágrannalöndunum. Við viljum gjarnan miða okkur við önnur norræn ríki. Þar eru t.d. gerðar miklu minni breytingar í þinginu á frumvörpum sem koma inn en hér tíðkast. Það má kannski segja að undirbúningur á þessu frumvarpi sé svolítið í anda þess sem þar þekkist og við eigum að þakka fyrir það.

Mér finnst þetta samt ansi bratt og langar að vita hvort þingmaðurinn deili því ekki með mér. Við eigum fyrir framtíðina, fyrir eftirlaun fólks í framtíðinni, að setja okkur inn í þetta á einni viku, því á endanum verður það Alþingi sem ber ábyrgðina. Það dugar þá ekkert að segja: Þetta var samkomulag aðila vinnumarkaðarins og kom hérna inn. Það er Alþingi sem ber ábyrgðina. Er ekki svolítið bratt að ætla að láta okkur gera þetta á einni viku?