145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:12]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek algerlega undir það sem hv. þingmaður segir, líka þetta með hvernig við fáum málin inn í þingið, hversu vel og illa unnin þau geta verið. Það er eins og sum frumvörp fari ekki einu sinni í almennilegt umsagnarferli eða að tekið sé tillit til alls konar atriða áður en þau koma til okkar. Þetta mál er einmitt ólíkt mörgum málum því að það hefur gríðarlega mikil vinna farið fram. En það breytir því ekki, eins og hv. þingmaður segir, að við berum ábyrgð á því og við þurfum líka að kalla eftir umsögnum og skoða það frá öllum hliðum. Ég veit ekki hvort við klárum þetta mál en ég lít svolítið þannig á það að við byrjum að vinna þetta og gerum það sem við getum. Sú vinna verður aldrei til einskis vegna þess að næsta ríkisstjórn heldur væntanlega áfram með málið. Kjósendur geta þá spurt flokkana út í það: Er þetta mál sem þið ætlið að halda áfram með? Ég ímynda mér að það sé vilji fyrir þessu máli úti í þjóðfélaginu. Við í fjárlaganefndinni vorum að fá fjáraukalögin. Við erum með opinber innkaup sem er mál sem við eigum eftir að klára. Skýrslan góða eða plaggið er nú komið úr okkar höndum. En eins og hv. þingmaður þekkir er nóg að gera í öllum nefndum. Það eru nokkrir dagar, fjórir þingdagar, þar til þingi lýkur. Ef við ætluðum að klára þetta mál væri það töluvert erfitt. Eins og ég sagði í andsvari áðan mundi það hjálpa mikið til á þessum punkti ef stjórnvöld eða ríkisstjórnin gæfi eitthvað út um hvað menn eru að hugsa, hvaða mál við eigum að leggja áherslu á á þinginu. Við erum með allt of mikið undir. En ég er eiginlega alveg viss um að hvort sem við náum að klára þetta eða vinnum það eitthvað verður þetta mál sem verður haldið áfram með af næstu ríkisstjórn. Ég yrði mjög hissa ef svo yrði ekki.