145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er að velta fyrir mér hugmynd hv. þingmanns, og þeirra jafnaðarmanna sem hann er í flokki með, um að hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla. Mér finnst það áhugaverð hugmynd. Hins vegar hefur það oft verið gagnrýnt hér og talað um að lífeyrissjóðir á Íslandi hafi ofboðslega mikil umsvif, að þeir séu fyrirferðarmiklir í hagkerfinu og að það sé ekki endilega æskilegt fyrirkomulag.

Þá velti ég fyrir mér: Ef við værum með einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sem ætti að sjá um þessar skuldbindingar og þarfir fyrir okkur öll, væri þá ekki um að ræða lífeyrissjóð sem hefði þvílík ítök í íslensku efnahagslífi að það væri orðið tvísýnt með það hvernig það ætti að ganga upp án þess að rótföst breyting yrði á því hvernig hagkerfið virkar? Getur hagkerfið þolað það að einn lífeyrissjóður verði fyrir alla landsmenn? Er það endilega efnahagslega skynsamlegt að einn risastór lífeyrissjóður, sem sjái um þarfir allra landsmanna, sé til staðar? Er það ekki ofboðslega mikil samþjöppun fjármálalegs valds? Þýðir það ekki að það sé þá sjóðurinn sem yrði yfirgripsmikið vald í íslenska kerfinu? Ég velti þessu fyrir mér.

Mér finnst sú hugmynd áhugaverð að hafa eitt kerfi fyrir alla en ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta yrði útfært. En það yrði vissulega skemmtilegra að tala um það en allar þessar mismunandi útfærslur sem við ræðum hér og reynum að finna lausnir á upp á hundruð milljarða eftir því sem ég fæ best séð.