145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að spurningar hv. þingmanns séu fullkomlega eðlilegar. Við verðum að hafa í huga, Íslendingar, að við erum aðeins 0,3 milljónir manna. Það eru einfaldlega engar forsendur fyrir því að reka allan þennan fjölda af lífeyrissjóðum sem við gerum fyrir svona fátt fólk. Það geta alveg verið sjónarmið að halda þurfi uppi einhverjum fjölbreytileika eða samkeppni, kannski vera með þrjá, fjóra sjóði eða eitthvað slíkt. En það er ekki grundvöllur fyrir fleiri en tveimur, þremur eða fjórum atvinnufyrirtækjum í öllum stærstu atvinnugreinum landsins og það sama á við um lífeyrissjóðina. Við erum ekki með 30 olíufélög eða tryggingafélög eða viðskiptabanka. Þetta er einfaldlega allt of lítið land til þess að einhver glóra sé í því rekstrarlega að haga því með þeim hætti.

Þegar við tölum um stóra sjóði getum við bara horft til frænda okkar Norðmanna sem hafa sýnt gríðarlega mikinn aga í sinni sjóðsöfnun og ávöxtun síns lífeyrissjóðs. Norski olíusjóðurinn er auðvitað lífeyrissjóður Norðmanna og þar er öllu safnað á einn stað. Það gerir að verkum að það er gríðarlega mikið aðhald og agi með fjárfestingum þess sjóðs og ávöxtunarstefnu hans. Ég held að við mættum sannarlega við því að auka mjög aðhald, aga og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðanna á Íslandi, jafnhrapallega og fór fyrir fjárfestingum þeirra fyrir aðeins örfáum árum þegar gríðarlegar fjárhæðir urðu að engu fyrir augunum á okkur.