145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef efasemdir um slíkt kerfi, þ.e. ef það væri einn sjóður. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ekki sé svigrúm fyrir meira en þrjú, fjögur fyrirtæki á þessum markaði í svona litlu landi, samanber bankakerfið kannski. En þá verður maður líka að velta fyrir sér hvort ekki sé best að við hugsum lífeyrisskuldbindingar meira út á við þannig að þær séu ekki lokaðar inni í þessu litla hagkerfi. Ég velti því fyrir mér.

Maður heyrir hér út um allt að lífeyrissjóðirnir kaupi upp mikið af fasteignum, þeir valdi fasteignabólu, sérstaklega þegar fjármagnið er fast innan fjármagnshafta. Við eldumst og það verður meira og meira vandamál eins og við sjáum af almannatryggingamálinu sem er til meðferðar í hv. velferðarnefnd. Vandinn heldur áfram að stækka, það vandamál að við þurfum að sjá fyrir fólki sem er orðið of gamalt til að vinna, fyrir utan það fólk sem á bara skilið að geta notið ævikvöldsins, eins og við jafnaðarmenn erum vissulega sammála um.

Mér finnst við hljóta að þurfa kerfi sem er annaðhvort ofboðslega umsvifamikið í íslensku hagkerfi gagnvart fasteignum og bara hagkerfinu almennt sem ég tel óhollt, og enn óhollara ef um er að ræða einn sjóð. Hv. þingmaður á kannski frekar við eitt kerfi, ég ætla ekkert að fara meira út í það, ég er ekki viss um að ég skilji pælinguna rétt ef ég á að segja alveg eins og er. Síðan er það hitt hvort við eigum ekki að leita meira út á við og reyna að tryggja framtíðarskuldbindingar erlendis þar sem markaðir eru stöðugri og meiri fyrirsjáanleiki en er hér á Íslandi. Er það kannski ekki tilfellið? Ég velti því fyrir mér.