145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:43]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var mjög yfirgripsmikil og það sem stakk mig mest var þegar hv. þingmaður talaði um íþróttir í MH. Það er góð samlíking í sjálfu sér af því að þetta snýst um hvernig við ætlum að halda hlutunum gangandi.

Í Þýskalandi eru lífeyrissjóðakerfin gegnumstreysmislífeyrissjóðir eða gegnumstreymiskerfi þar sem peningurinn sem lagður er í lífeyrissjóðina á hverjum tíma borgar fyrir lífeyri þeirra sem eru á lífeyri á sama tíma. Það sem lagt er upp með hér er í raun uppsafnaður lífeyrir, uppsafnað lífeyriskerfi, þar sem hver og einn á að standa undir sjálfum sér í framtíðinni. Það eru gallar og kostir við kerfin tvö.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hyggi að ekki væri mögulega betra að vera með einfalt gegnumstreymiskerfi þar sem iðgjöldin og framlag til lífeyrissjóðanna væru lægri, væru metin á hverjum tíma og að það væri ákveðinn samfélagssáttmáli um að við sæjum um hvert annað á þeim tíma sem við lifum, í stað þess að vera að reyna að spara fram í tímann. Ég legg inn í minn lífeyrissjóð, ég er ekki 67 ára eftir 40 ár, ég verð 67 ára eftir alla vega 41 ár. Fyrir mig er það mjög langur tími.

Ég spyr: Er ekki betra að reyna að hugsa um nútíðina í stað þess að vera að hugsa svona langt fram í tímann? Það er spurning mín.