145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka herra forseta sem tókst að heimilisfæra mig rétt að lokum. Mér verður stundum á sjálfum að segja Norðausturkjördæmi eða eitthvað svoleiðis, þannig að ég skil forseta vel.

Varðandi afgreiðslu þessara stóru mála er þetta nokkuð snúið vegna þess að upp að vissu marki væri gott að einhver ein þingnefnd ynni þetta með heildaryfirsýn en svo er ekki. Nú erum við með þá stöðu að almannatryggingamálin sem hafa mikla skörun inn í þetta og öfugt er í velferðarnefnd og þessu máli leggur hæstv. fjármálaráðherra til að verði vísað til fjárlaganefndar, ekki efnahags- og viðskiptanefndar sem almennt hefur þó verið með þessi mál. Þetta er svolítið tætingslegt. Kannski er þetta að einhverju leyti vegna álagsins hérna og vinnustöðunnar, þessu sé skotið til fjárlaganefndar af því að efnahags- og viðskiptanefnd er drekkhlaðin verkefnum. Nú ber ég verulega virðingu fyrir fjárlaganefnd eins og kunnugt er og þetta er ekki sagt í neinni niðrandi merkingu í hennar garð, en hún hefur auðvitað ekki verið sérstaklega með þessi mál að undanförnu.

Varðandi framtíðina og þá stöðu sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson bendir réttilega á í framhaldi af mínum hugleiðingum þá verðum við að vanda okkur verulega vel. Við megum ekki teikna inn í framtíðina hóp sem verður dæmdur til miklu lélegri stöðu en ella væri. Jú, alþjóðlegt samstarf, t.d. norrænt samstarf skiptir máli. Eitt af því sem hjálpar til er að skattlagning lífeyristekna sé sem svipuðust í löndum þar sem er mikið flæði á milli og að það gangi greiðlega að flytja lífeyrisrétt milli landa ef menn hafa unnið hluta ævinnar í einu landi og hluta ævinnar í öðru. En það eru vandamál í því efni, jafnvel innan Norðurlandanna, og þrátt fyrir alla viðleitni til að draga úr hindrunum í þeim efnum erum við alltaf að takast á við vandamál sem leiða af mismunandi skattlagningu, mismunandi réttindum og aldursmörkum og öðru slíku.

Ég á mér eina stóra draumsýn um hvað væri best í hinum besta heimi allra heima, það er að frá 16 ára aldri væri greitt fyrir alla í lífeyrissjóð, alltaf, þannig að öryrkjar og námsmenn og aðrir slíkir (Forseti hringir.) fengju samfélagslaun og af þeim væri greitt (Forseti hringir.) í lífeyrissjóð þannig að allir yrðu nákvæmlega eins settir (Forseti hringir.) þegar þeir kæmust á eftirlaunaaldur 67, 70 ára gamlir eða hvað það nú verður.