145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar umræður. Sérstaklega hefði ég áhuga á að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon greina betur frá þeim útreikningum sem liggja að baki þeirri fullyrðingu að það að fara þá leið sem hann lýsti, að ríkið greiddi iðgjöld í lífeyrissjóði fyrir tiltekna hópa sem ekki eru virkir á vinnumarkaði, mundi þegar upp er staðið ekki kosta ríkið neitt meira. Ef svo er finnst mér að það sé leið sem eigi að skoða mjög rækilega.

Hv. þingmaður lýsti ákveðnum efasemdum um að rétt væri að senda málið til hv. fjárlaganefndar, tók sérstaklega fram að af hans hálfu væri það hvorki flím né kerskni að orða það svo. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, mér finnst að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki beinlínis síðustu vikur sýnt það af verkum sínum að það sé endilega ávísun á farsæld að senda málið þangað.

Það sem mig langaði hins vegar til að segja að ég er töluvert jákvæðari á þetta mál en hv. þingmaður, ég held að markmiðið sé mjög gott. Ég held að það sem menn ætla sér að gera með þessu, að reyna að jafna á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, bæði lífeyrisréttindi og síðan líka, eins og er yfirlýst markmið í sérstakri yfirlýsingu aðilanna, að jafna á næstu tíu árum launamuninn. Þetta er dásamlegt markmið, eitt af því sem menn mundu vilja vinna langa ævi í stjórnmálum til að stuðla að.

Ég get svo deilt með hv. þingmanni áhyggjum af því að það muni hugsanlega ganga illa að afgreiða málið á þessum stutta tíma. Hann hefur verið fjármálaráðherra. Er yfir höfuð hægt að afgreiða mál eins og þetta án þess að leyfa öllum þeim hópum og starfsstéttum sem undir eru að koma og eiga orðastað við fagnefndir þingsins og segja álit sitt á því, t.d. þeim fjórum starfsgreinafélögum sem hafa lýst andstöðu og stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga, sem mér virtist beinlínis lýsa fullri andstöðu, kannski fyrst og fremst á grundvelli samráðsleysis? (Forseti hringir.) En er hægt að taka svona stórt mál með skemmri skírn (Forseti hringir.) í gegnum þingið án þess að (Forseti hringir.) þeir hópar fái að segja sitt?