145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Tíminn leyfir ekki að fara lengra út í þessar vangaveltur um öðruvísi kerfi þar sem (ÖS: Hvað með fyrirheit um …?) lífeyrisgreiðslur væru byggðar upp fyrir alla hópa, líka þá sem ekki eru á vinnumarkaði á tilteknu æviskeiði eða jafnvel alla ævina. En ef við tökum einfaldað dæmi af einstaklingi, ungum öryrkja, sem fer jafnvel aldrei inn á vinnumarkaðinn. Það sem mundi einfaldlega gerast er að ef ríkið bætti við örorkulífeyrinn iðgjöldum í lífeyrissjóð og sá lífeyrissjóður er ávaxtaður og síðan þegar öryrkinn kemur á eftirlaunaaldur liggur lífeyrissparnaður hans fyrir í sjóði og tekur við í staðinn fyrir að ríkið þyrfti áfram í gegnum almannatryggingakerfi að skapa honum sómasamlega afkomu af því að hann ætti ekki lífeyrisrétt. Með einum eða öðrum hætti verður að tryggja lífskjör þeirra sem ekki hafa eigið aflafé til að komast sómasamlega af, öryrkjum, þeim sem flytja hingað á miðjum aldri og eiga hvorki fullan rétt í lífeyrissjóðum né almannatryggingum o.s.frv.

Nei, það er erfitt að afgreiða stórmál af þessu tagi. Í fyrsta lagi er það svo stórt að menn þurfa að hafa góða sannfæringu fyrir að verið sé að gera rétt. Í öðru lagi er þetta svo nátengt kjörum hópa, þetta er í raun og veru svo samtvinnað við kjörin sem viðsemjendurnir eiga, að þeir sem ekki eru aðilar að samkomulaginu eru líka viðsemjendur, þeir eiga líka sinn sjálfstæða samningsrétt. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að það eru ekki allir á bak við þetta. Það eru stórir og fjölmennir hópar sem geta tekið til sín sinn samningsrétt og beitt honum. Ríkið verður auðvitað að átta sig á því að það er gríðarlega mikilvægt að hlusta á öll sjónarmið og reyna ef mögulegt er að laða fram samstöðu. Við þurfum að ræða við þá sem gera athugasemdir, eru ósáttir. Er eitthvað sem hægt er að gera (Forseti hringir.) til að ná öllum um borð?