145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr svo viðamikilla spurninga að það er beygur í manni að reyna að glíma við þær. Í fyrsta lagi af því að hann ræddi um að hann væri jafnvel jákvæðari í garð þessa frumvarps en ég, þá hefur hann kannski misst af blábyrjun ræðu minnar þar sem ég einmitt tók það fram og fagnaði því að þetta væru gríðarlega mikilvæg markmið sem þarna væru sett upp og þar á ég að sjálfsögðu við uppbyggingu á einsleitu réttindaávinnslukerfi fyrir alla landsmenn í lífeyrismálum. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt mál, þannig að landamærin milli opinbera kerfisins eyðast eins mikið út og mögulegt er. Það er réttindaávinnslan og rétturinn sem skiptir öllu máli, ekki spurningin um hvort þetta eru einn eða tveir eða fleiri lífeyrissjóðir. Þess vegna er verið að setja hér alveg rétt markmið hvað það snertir, að jafna lífeyrisréttindin upp á við. Það er gleðileg niðurstaða því að fram að þessu hafa menn stundum talað jafnvel í hina áttina, að það yrði bara að taka niður lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna til að þau mættu almenna vinnumarkaðnum kannski einhvers staðar á miðri leið. Nú er það bara útkljáð. Við ætlum með allan vinnumarkaðinn upp í þessi hlutföll og reyna að jafna launamuninn í leiðinni, allt saman gríðarlega mikilvægt.

Svo er það stóra spurningin um framtíðina. Ég sagði einmitt í ræðu minni, ég skil vel að þeir sem horfa á þetta í núinu og fyrir sig og eru inni í menginu í dag telji sig sæmilega sátta vegna þess að það á enginn að missa neins í þeim efnum. En þetta er miklu meira spurningin um framtíðina. Að sjálfsögðu taka þeir hópar á sig lenginguna og þá staðreynd að ríkið er ekki lengur ábyrgt á bak við A-deild LSR í þeim skilningi sem það hefur verið, að þó að hún eigi að vera sjálfbær þá er ríkið skuldbundið til, með ráðstöfunum, að tryggja mönnum réttindin og þá með hærri iðgjöldum ef þyrfti. Ef ég skil rétt þá hverfur þessi ábyrgð. Eftir það verður kerfið að standa á eigin fótum.

Þess vegna er alveg skiljanlegt að þeir sem hafa kannski efasemdir um að launajöfnunin (Forseti hringir.) gangi svo jafn greitt og menn vonast til að þetta náist (Forseti hringir.) allt á sex til tíu árum, séu órólegir.