145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:45]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað lifað við allt þetta og margt fleira. Ég átta mig bara ekki á því hvað það er í þessu máli sem kallar á svona rosalega mikinn tíma og miklar vangaveltur. Þarna er verið að ná fram hlutum loksins sem búið er að tala um svo lengi sem ég man (HHG: Sem er lengra en ég hef lifað.) Já, minni mitt er að vísu ekki langt.

Hérna er tiltölulega einfalt atriði. Ég skal alveg viðurkenna það, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að ég hef engan áhuga á borgaralaunum frekar en skattgreiðendur í Sviss. Bara engan. Ég tel það vonda hugmynd. En það er allt önnur umræða. Ég held, hv. þingmaður, að við eigum að fara í þetta mál, leyfa auðvitað þeim sem hér hafa gert athugasemdir sem eru einhver fjögur félög að koma athugasemdum sínum og rökum á framfæri. Við höfum afgreitt miklu stærri mál á skemmri tíma en þetta, mál sem varða efnahag landsins og gífurlega hagsmuni, og ég sé enga ástæðu fyrir því að við getum ekki afgreitt þetta. Það hefur komið mér á óvart hversu margir þingmenn hafa rætt að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál af því að tíminn sé svo skammur. Ég sé engin rök fyrir því og ég óska eftir því frá hv. þingmanni að vita hvaða rök eru fyrir hendi og hvað gerir að verkum að við getum ekki afgreitt þetta mál á skömmum tíma sem er gífurlegt hagsmunamál fyrir þá sem hér um ræðir, (Forseti hringir.) að við gerum sjóðinn sjálfbæran og samræmum réttindi.