145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því undir þessum lið um störf þingsins að fagna því að forseti ætli að gera fundarhlé á eftir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingflokkar fái ráðrúm til þess að ræða saman fyrir næsta mál.

Ég vil líkt og fleiri sem hafa tekið til máls í dag ræða um störf þingsins vegna þess að líkt og við vitum öll eru ekki nema örfáir dagar eftir af starfsáætlun þingsins, þ.e. við höfum fram á fimmtudag í næstu viku til þess að klára málin samkvæmt starfsáætlun. Hins vegar eru enn að koma inn ný mál og það er enn verið að mæla fyrir nýjum málum og það ekki bara málum sem á að sýna aðeins á heldur málum sem ég heyri ekki annað en að standi vilji til að klára á þessu þingi. Þarna undir eru m.a. risavaxin mál sem krefjast mjög vandaðra vinnubragða. Mig langar sérstaklega að nefna í því efni breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og breytingar á lögum um almannatryggingar sem snerta líka breytingar á lífeyristöku út úr almenna tryggingakerfinu. Hér er verið að tala um kerfisbreytingar í tveimur risastórum málum sem snerta framfærslu fólks. Ég hef áhyggjur af því að ekki sé verið að skoða málin heildstætt og að þinginu gefist einfaldlega ekki tími til að vinna þessi mál með þeim hætti (Forseti hringir.) sem þarf að gera. Það er algjörlega óásættanlegt að við sýnum þannig vinnubrögð (Forseti hringir.) þegar við erum með framfærslu fólks í höndunum. Þá þarf einfaldlega að gefa sér meiri tíma.


Tengd mál