145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þá höfum við heyrt þann boðskap að það er hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þakka hversu vel hefur gengið á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í: Nei, …) Við byggjum á vinnu hans. Við getum rifjað upp hve gagnrýnd þau hafa verið skrefin sem stigin hafa verið á þessu kjörtímabili til að bæta hag heimila og fyrirtækja í þessu landi, þar sem farin var skörp beygja frá stefnu síðustu ríkisstjórnar.

Hér er talað um að ríkisstjórnin sé í tilvistarkreppu, virðulegi forseti. Það er ekki ríkisstjórn í tilvistarkreppu sem er hér með á borðinu stórt frumvarp sem tekur mjög vel á málefnum eldri borgara sem kallað er eftir ákveðnum lausnum á. Það er stjórnarandstaða í tilvistarkreppu sem vill reyna að koma í veg fyrir að það komi aukafjármagn til afgreiðslu í þinginu og stórbætt kjör þessa hóps. Lánasjóður íslenskra námsmanna — það hefur verið glímt við það í áratugi að gera breytingar á því kerfi og það hefur tekist á þessum árum að búa til frumvarp sem námsmannahreyfingarnar fagna allar. En það var minni hlutinn á þessu þingi sem kom í veg fyrir að það fengist mælt fyrir frumvarpinu sem var tilbúið í vor þannig að þingið gæti unnið það í sumar. En auðvitað ætlum við að svara kalli námsmanna og klára þessi mál.

Lífeyrissjóðamálið er annað dæmi um eitthvert stærsta skref í því að viðhalda stöðugleika fram í tímann, breyta algjörlega viðmiðum á launamarkaði og höggva á hnút sem menn hafa lengi verið að reyna að leysa. Að sjálfsögðu klárum við það. Það er ekkert hægt að tala eins og þetta sé eitthvert nýtt mál, að þessu máli hefur verið unnið í marga mánuði á vettvangi aðila vinnumarkaðarins, meðal þessara hreyfinga sem hafa allar skrifað undir þetta samkomulag. Ætlar þingið að fara að hafa vit fyrir þessu fólki, sem er búið að stúdera þetta?

Nei, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) ríkisstjórnin er ekki í neinni tilvistarkreppu. Hún er að koma hér með mál sem hún sagðist (Forseti hringir.) ætla að klára og við ætlum að klára. Ef við þurfum fleiri daga í þinginu, fram í október, (Forseti hringir.) þá tökum við okkur þá daga til þess að ljúka þessum mikilvægu málum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna