145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í kjölfar þess að Alþingi samþykkti nýlega búvörusamninga upphófst úti í þjóðfélaginu um það hversu skelfilegir þessir samningar væru, sem þeir eru náttúrlega ekki, og þessi umræða hefur farið um víðan völl fáfræðinnar um allt þjóðfélagið. Methafinn í þessari upphrópunarkeppni hlýtur að vera forstjóri Haga sem kallaði búvörusamningana ríkisstyrkt dýraníð. Það er fáheyrt að maður sem er í ábyrgðarstöðu í þjóðfélaginu skuli gengisfella sjálfan sig svo rækilega sem þessi ágæti maður gerði með þessum ummælum sínum og dæmdi sig í raun úr leik í opinberri umræðu á Íslandi með þessum fáheyrðu ummælum.

Það er skiljanlegt að forstjórinn sé ögn stressaður og pirraður þessa dagana. Hann sér fram á það í fyrsta skipti á ferlinum að fá alvörusamkeppni eftir áramótin. Hann hlýtur að vera ögn áhyggjufullur vegna þess og það birtist m.a. í því að hann er nú ásamt vinnufélögum sínum á hröðum flótta frá fyrirtækinu sem þeir starfa við. Þeir hafa verið að selja hluti sem þeir eiga í fyrirtækinu og það vill svo til að fjölskylda þessa ágæta forstjóra gekk um daginn í burtu með 300 milljónir í hagnað af sölu hlutabréfa í þessu sama fyrirtæki en það er u.þ.b., ef ég man rétt, hagnaður Mjólkursamsölunnar á einu ári, þ.e. síðast þegar Mjólkursamsalan hafði hagnað af rekstri sínum.

Ég segi aftur: Það er með ólíkindum að maður í stöðu eins og forstjóri Haga skuli tala svona við viðskiptavini sína vegna þess að bændur eru einu stærstu viðskiptavinir þessarar verslunarkeðju. Ég endurtek að menn sem fara svona fram í umræðu á Íslandi dæma sjálfa sig úr leik.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna