145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:07]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill af þessu tilefni segja eftirfarandi: Þetta mál á sér langan aðdraganda sem mælist ekki í mánuðum heldur árum. Það þingskjal sem við erum nú að fara að taka afstöðu til var lagt fram á Alþingi 12. apríl sl., fyrir hálfu ári eða þar um bil. Málið var sent til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 10. maí sem afgreiddi málið frá sér fimm mánuðum síðar, 14. september. Nefndarálitinu sem við erum nú að fara að byggja okkar afstöðu á var dreift 19. september. Þingið hefur með öðrum orðum haft ærinn tíma til þess að undirbúa þetta mál.

Það er ljóst að um þetta mál er ágreiningur. Hann lýtur að miklu grundvallaratriði sem er spurningin um stjórnarskrána sem hér hefur verið rædd. Í þessari stöðu er auðvitað ekki neitt annað að gera en að hv. þingmenn taki afstöðu til málsins og m.a. til þeirrar stjórnarskrárspurningar sem uppi er nú í umræðunni á grundvelli þeirrar vinnu sem Alþingi sjálft hefur lagt af mörkum. Forseti mun auðvitað ekki verða úrskurðaraðili um það hvor aðilinn hafi á réttu að standa meðal þingmanna. Það gera þingmenn sjálfir í atkvæðagreiðslu.