145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að svara rökum hv. þm. Birgis Ármannssonar og virðulegs forseta um það að menn hafi getað haft þessar athugasemdir lengi. Vissulega er það rétt, en eins og þingheimur veit lýkur fundarstörfum ekki þegar einhverjum meiri hluta finnst komið nóg heldur þegar ferlinu er lokið. Við erum enn þá ekki búin að greiða atkvæði um málið. Þingið hættir ekki að vinna að málum þegar nefndarálit meiri hluta í nefnd liggur fyrir. Þess vegna erum við með þrjár umræður og þess vegna erum við með atkvæðagreiðslur.

Ég blæs á þau rök að við höfum haft langan tíma til þess að finna út úr þessu máli fyrir utan það að meðfram þessu ferli hafa áhyggjurnar farið stigvaxandi. Það segir sína sögu, virðulegi forseti, og þess vegna er ferlið eins og það er. Það er til þess að leyfa því að gerast þegar tilefni er til og núna er tilefni til. Þess vegna er ekki tímabært að greiða atkvæði um þetta mál eins og stendur.

Hvað varðar það að eitthvað standi í einhverju meirihlutaáliti hér og þar er það þannig, hæstv. forseti og hv. þingmenn, að þingmenn verða að geta lært. Þeir verða að geta skipt um skoðun þegar málin eru rædd og fleiri og fleiri gögn liggja fyrir. Þetta þykir algjörlega sjálfsagt í (Forseti hringir.) allri mannlegri hegðun nema þegar kemur að stjórnmálum. Þá allt í einu eiga þingmenn aldrei að skipta um skoðun og aldrei að læra nokkurn skapaðan hlut.