145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar virðist það vera gríðarlega erfitt fyrir þingmenn að viðurkenna að það sé í lagi að skipta um skoðun þegar betri upplýsingar og ítarlegri upplýsingar liggja fyrir. Nú höfum við fengið upplýsingar frá okkar aðalsérfræðingum í stjórnskipunarrétti. Meiri hlutinn ætlar bara að hunsa það eins og það skipti bara engu máli, og hunsa það að við ætlum að fara í þá aðgerð að fremja stjórnarskrárbrot með fullri meðvitund. Hvers konar skilaboð eru það til þjóðarinnar? Hvers konar vinnubrögð eru það, forseti, þó svo málið hafi verið hér í einhvern tíma? Hversu oft fara mál ekki í gegnum þingið án þess að meira en helmingur þingmanna viti nokkuð um hvað þeir eru að kjósa? Ég hef séð það ítrekað og spurt þingmenn hvort þeir viti hvað þeir eru að kjósa (Forseti hringir.) um, en þeir segjast bara vera á græna takkanum af því að allir hinir eru á honum.