145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við getum hér í þingsal haft skiptar skoðanir varðandi þetta mál. Ég held að samt sé mjög mikilvægt að við tölum ekki niður okkar eigin vinnu. Það eru tvær nefndir sem hafa lagt sig fram við að fara yfir þau álitamál sem hafa komið upp í tengslum við þetta mál. Við frestuðum atkvæðagreiðslu í gær til að funda aftur um málið. Málið er búið að vera hér í þinginu í fleiri mánuði. Við getum verið ósammála og greiðum þá atkvæði í samræmi við það en hættum að tala niður þá miklu og góðu vinnu sem fer fram hér í þinginu.