145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er slyngur skákmaður og vera má að hann hafi með málflutningi sínum undanfarna daga verið að reyna að setja einhvers konar gaffal á stjórnarliða til þess að reyna að koma í skyndi einhverjum tilteknum stjórnarskrárbreytingum í gegn. En að því slepptu er rétt að taka fram að þegar við tökum mál af þessu tagi fyrir leggjum við ákveðna mælikvarða á þau, við skoðum og greinum eins vel og við getum hvort verið er að ganga lengra en áður hefur verið gert. Og þegar sá mælikvarði sem notaður hefur verið við afgreiðslu sambærilegra EES-mála í þinginu er lagður á þau atriði þessa máls þar sem stjórnarskrárvafinn er uppi komumst við að þeirri niðurstöðu að hér séum við ekki að ganga lengra en gert hefur verið í tilvikum af slíku tagi. Við erum innan þeirra heimilda og vinna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur m.a. falist í því að reyna að átta sig á þeim þáttum. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég sannfærður um að við erum ekki að brjóta stjórnarskrána (Forseti hringir.) með þessu máli. Spurningin um frekari breytingar á stjórnarskrá, m.a. með tilliti til (Forseti hringir.) framsalsákvæða, leysa okkur ekki undan öllum vanda í þessu sambandi (Forseti hringir.) því að eftir sem áður þyrftum við að fara í mat af því tagi sem við höfum nú þegar gert í þessu máli.