145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Óháð efni þeirrar tilskipunar sem hér er til afgreiðslu eru staðreyndir málsins þær að margir af helstu fræðimönnum landsins á sviði stjórnskipunarréttar telja að þetta mál stangist á við stjórnarskrá. Það eitt og sér er nægilegt til þess að þingmenn hljóta að íhuga það mjög vandlega hvort þeir eru reiðubúnir að styðja málið og það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar þegar því er ítrekað haldið fram að þetta hafi svo oft áður gerst að þess vegna sé ekki sérstök ástæða til að staldra við núna. Það eru engin rök í málinu. Þau rök segja okkur bara að við höfum látið reka á reiðanum með að smíða almennileg ferli þannig að eðlilegt mat geti farið fram á því hvort framsal valdheimilda stangist á við stjórnarskrá. Mér finnst þetta mikill ábyrgðarhluti fyrir Alþingi Íslendinga sem samþykkti fyrir nokkrum árum tillögur um bætt vinnubrögð og m.a. að hlusta sérstaklega (Forseti hringir.) eftir áliti sérfræðinga á svona málum. Af þeim sökum mun ég leggjast gegn málinu.