145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er engin leið að halda því fram að hér sé um enn eitt vafamálið vegna EES-samningsins að ræða. Þetta mál er annars eðlis en öll þau mál sem við höfum fengið að sjá á undanförnum árum. Ekkert sýnir það betur en sú staðreynd að Norðmenn töldu sig þurfa að beita hinu sérstaka framsalsákvæði sínu til að samþykkja það hjá sér. Það liggur líka fyrir að helstu sérfræðingar okkar í stjórnskipunarrétti sem um málið hafa fjallað vara við því og telja það ekki samrýmast stjórnarskránni. Við höfum boðið upp á þá leið að hér verði leitað samstöðu um ákvæði, sem er margrætt og víðtæk samstaða um, sem væri hægt að setja í stjórnarskrá sem heimilaði afmarkað takmarkað framsal. Því hefur verið hafnað. Ef málið gengur fram með atkvæðum meiri hlutans er verið að skapa það fordæmi að einfaldur meiri hluti Alþingis geti, hvenær sem honum sýnist, afsalað valdi til alþjóðastofnana. Ég er á móti því (Forseti hringir.) að þannig sé gengið fram gagnvart stjórnarskrá Íslands.