145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar þurfum nýja stjórnarskrá, það er deginum ljósara. Gildandi stjórnarskrá heimilar ekki það sem hér er verið að gera. Það sem verið er að gera er að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, af öllum stjórnmálaflokkum, eru að fela Evrópusambandinu vald til þess að loka bönkum á Íslandi. Það má ekki að gildandi stjórnarskrá. Alþingi hefur aldrei gengið gegn áliti prófessors í stjórnskipunarrétti og hins sérfræðingsins við Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti þegar um hefur verið að ræða álitaefni gagnvart stjórnarskránni. Meiri hlutinn er að keyra yfir á tvöföldu rauðu ljósi, hvað sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir segir. Verið er að ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar vitandi vits. Hér undir nafnakalli er rétt að hafa í huga að tuttugu síðna greinargerð Bjargar Thorarensen, sem lögð var fram í nefndinni í morgun, hefur ekki verið lesin af þeim þingmönnum sem taka afstöðu til eiðs síns að stjórnarskránni í þeirri atkvæðagreiðslu.