145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við þurfum breytingar á stjórnarskrá. Það er með miklum ólíkindum að ríkisstjórnin skuli velja að tefla íslensku fjármálakerfi í þá lagalegu óvissu sem hún er nú að gera. Fátt er mikilvægara á fjármálamarkaði en traust, trúverðugleiki og áreiðanleiki. Að löggjöf um fjármálamarkað eigi að byggja á svo hæpnum grunni að fyrir fram liggi yfirlýsingar tveggja helstu sérfræðinga landsins í stjórnskipunarrétti að hún haldi ekki sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á neyðarstundu á fjármálamörkuðum, á bótaábyrgð íslenska ríkisins, á tilraunir til að loka bönkum á neyðarstundum. Það er algerlega óþolandi lagaleg óvissa bæði fyrir fjármálakerfið og fyrir samfélagið allt. Ég skil því ekki, virðulegur forseti, af hverju menn fara af stað af slíkri skammsýni, bæði gagnvart stjórnarskránni og gagnvart fjármálamarkaðnum sem þetta á þó að þjóna.