145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að taka ákvörðun þar sem við erum að framselja meira ríkisvald til yfirþjóðlegrar stofnunar en við höfum nokkru sinni áður gert. Þessi ákvörðun mun veita slíkri stofnun vald til þess að grípa inn í hvers kyns fjármálastarfsemi við ákveðnar aðstæður, jafnvel til að stöðva og banna tímabundið rekstur fyrirtækja. Ég tel að þessi ákvörðun ein og sér stangist á við stjórnarskrána. En okkur ber þar að auki að leggja áhrif þessa framsals saman við áhrif fyrri skyldra samþykkta. Þegar það er gert held ég að það sé hafið yfir allan vafa að við erum komin út fyrir þau mörk sem stjórnarskráin heimilar. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að við samþykkjum nýja stjórnarskrá og sú stjórnarskrá á að vera á grundvelli þeirra draga sem stjórnlagaráð gerði. Það á að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að koma saman og ræða það og fyrsta verk nýs Alþingis að samþykkja slíka stjórnarskrá. Ég segi nei.