145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ákveðin tilbreyting var fólgin í því að hlusta á hv. þm. Árna Pál Árnason áðan miðað við þann stóryrðaflaum sem hefur dunið á okkur í þessum þingsal í dag. Hv. þm. Árni Páll Árnason benti á mjög mikilvægan þátt í frágangi málsins af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem felur í sér mikilvæga fullveldisáréttingu sem á sér stoð í EES-samningnum þar sem gert er ráð fyrir að ríki hafi hér eftir sem hingað til tækifæri og möguleika og svigrúm til að bregðast við alvarlegum aðstæðum með þeim ráðum sem stjórnvöld og þing telja nauðsynleg. Það er mjög mikilvægt að þetta atriði komst á framfæri.

Ég held að þau stóryrði sem hér hafa verið uppi eigi sér ekki innstæðu. Ég vísa til þess að það var farið nákvæmlega yfir það efnisatriði málsins og greint hvar gæti verið um framsal að ræða. Þar erum við ekki að ganga lengra en (Forseti hringir.) gert hefur verið þegar horft er á efnisatriðin, þegar horft er á þær heimildir sem um er að ræða og sú niðurstaða er í mínum huga ótvíræð. Ég segi já.