145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði gegn frumvarpinu af þeim ástæðum sem tíundaðar hafa verið. Ég velti fyrir mér hvernig það verður í framtíðinni næst þegar svona umræða kemur upp; verða sömu rökin með eða á móti? Verður þá gripið til þess ráðs að fara að endurskoða stjórnarskrána? Mun meiri hlutinn þá leggja fram framsalsákvæði í stjórnarskrá? Ef við ætlum aldrei að gera það skulum við vera heiðarleg með það og hætta að láta eins og EES og ESB snúist eitthvað um stjórnarskrána. En ef við ætlum að láta eins og það snúist um stjórnarskrána skulum við taka það málefni alvarlega. Það felur í sér að taka til efnislegrar meðferðar nýja stjórnarskrá grundvallaða á drögum stjórnlagaráðs sem var komin langt hér inn í þing. Mikil vinna hafði verið sett í það mál, ekki síst 111. greinina, enda voru tvær breytingartillögur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 141. þingi til staðar. Við höfum haft nægan tíma til að ræða það líka. Ég legg til að næsta þing taki stjórnarskrána sem sitt fyrsta forgangsmál í sinni vinnu. (Gripið fram í: Heyr. heyr)