145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að gera athugasemd við það að á dagskrá eru mál sem hafa verið boðuð en líka önnur mál sem eiga að fara í 1. umr. Nú, þegar gert er ráð fyrir að fjórir þingfundardagar séu eftir, er enn verið að setja á dagskrá mál sem bíða 1. umr. og kalla væntanlega á umfjöllun af hálfu þingsins. Enn er ekki búið að setja neitt niður um það hverju stjórnarmeirihlutinn vill ljúka á þeim fjórum þingfundardögum sem eru eftir. Ég verð að segja að mér finnst sú tilhögun að halda þinginu áfram í gíslingu — hér er þegar búið að framlengja starfsáætlunina, gott og vel. Við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að standa málefnalega að öllum afgreiðslum og greiða fyrir málum í gegnum þingið. Nú er hins vegar sú tilfinning farin að koma upp að hér sé verið að misnota sér þá afstöðu að taka málefnalega á málum og að hér eigi bara að halda áfram að setja ný og ný mál á dagskrá, algjörlega óháð öllum römmum eða starfsáætlun. Ekki er nokkur tilraun gerð til að eiga samtal um það hvernig eigi að ljúka þinginu og hvaða málum eigi að ljúka.