145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Forseta til upprifjunar er 23. september í dag og þá erum við löngu komin fram yfir það að vera að ræða ný mál. Það hljóta allir að sjá. Þingið er algjörlega stjórnlaust. Það er havarí og uppnám hérna dag eftir dag. Ég vil líka nefna við forseta að það er einhver neyðarfundur sem stendur yfir hjá Framsóknarflokknum, þannig að ég veit ekki betur en allur þingflokkur Framsóknar sé á fundi um sín innri mál. Er þá ekki viðeigandi að við gerum hlé á þingfundi meðan það stendur allt saman yfir þannig að framsóknarmenn geti tekið þátt í umræðunni um næsta mál á dagskrá? Verðum við ekki að taka tillit til þess þegar innantökurnar eru með þeim hætti að menn eru að funda hérna á miðjum þingfundi um sín innri mál? Er ekki rétt að horfast í augu við það og gera hlé á fundinum?