145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við öll sem einstaklingar höfum lent í þeirri stöðu að vera með mikið á okkar borði. Hvað gerir maður þá? Maður fer yfir tímann sem maður hefur til stefnu, fer yfir umfang þeirra mála sem þarf að klára og fer í það að forgangsraða og reyna að koma sem flestu fyrir innan þess tímaramma sem maður hefur. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Hér setjast menn ekki einu sinni niður og átta sig á hvað er gerlegt á þeim tíma sem eftir er af þingi. Hér er nýbúið að mæla fyrir stórri löggjöf um kjararáð og lífeyrismál, í efnahags- og viðskiptanefnd eru stórmál sem varða afléttingu fjármagnshafta, snúa að verðtryggingu og verðtryggðum lánum, fyrstu íbúðakaupum, rammaáætlun er komin til atvinnuveganefndar og nú ætla menn að mæla fyrir tveimur stórum málum til viðbótar í dag og það er vika til stefnu. (Forseti hringir.) Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki upp. Setjumst nú niður eins og fólk (Forseti hringir.) og förum yfir dagatalið í sameiningu og finnum (Forseti hringir.) út úr því hvað við treystum okkur til að klára og hvað ekki.