145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ef Alþingi væri prentsmiðja þá væri búið að prenta lokalögin. Núna er það alveg eins og þegar ég vann einu sinni á dagblaði að ef blaðamaðurinn skilaði ekki efninu á réttum tíma og umbrotsmaðurinn skilaði ekki síðunni sinni á réttum tíma, eða þeir sem vildu auglýsa skiluðu ekki inn auglýsingunum á réttum tíma, þá fór það ekki í blaðið. Það er búið að loka blaðinu, forseti. Það er ekki hægt að koma með fleiri ný mál inn á þing. Þetta er fráleitt, algjörlega fráleitt. Í raun og veru ættu öll þau mál sem hingað hafa komið eftir að forseti þingsins var búinn að gefa ríkisstjórninni nákvæma dagsetningu á því hvenær væri síðasti skilafrestur að fara út af dagskrá þingsins. En það er eins og forseti hafi ekki neina getu til að segja við framkvæmdarvaldið hingað og ekki lengra. Það er mjög dapurlegt.