145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Nú rétt áðan var LÍN-frumvarpið svokallaða tekið út úr nefnd eftir litla sem enga efnislega umræðu um risastór vafaatriði sem snúa að því hvort það kerfi sem er verið að leggja upp með í frumvarpinu sé betra eða verra en það sem við erum með núna. Af hverju var það bara rifið út? Af því að við höfðum ekki tíma, við erum ekki búin að vera að vinna nógu vel yfir veturinn af því að mál þessarar ríkisstjórnar, sem virðist vera í tilvistarkreppu, hafa ekki komið fram fyrr en eftir síðasta skiladag. Vitið þið hvað? Þegar maður skilar inn ritgerð of seint þá fellur maður á prófinu, það er bara þannig. Þessi ríkisstjórn, þessi meinta ríkisstjórn sem liggur hérna í dauðateygjum, á bara að fara, það er komið nóg.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími til að gera hlé á þessum þingfundi, setjast niður og finna út hvað við þurfum að gera. Það eru ákveðin mál (Forseti hringir.) sem munu ekki fara í gegn (Forseti hringir.) og það er alveg tilgangslaust að þykjast og halda að svo geti orðið.