145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega þarna sem hundurinn liggur grafinn vegna þess að það er í sjálfu sér ekki áhugavert hvort hið nýja framkvæmdaleyfi fellur undir Árósasamninginn eða ekki, hann gerir það augljóslega ekki. Þegar við tölum um nýtt framkvæmdaleyfi sem löggjafinn gefur er það annarrar gerðar en þeirrar sem Árósasamningnum er ætlað að fjalla um.

Þeirri spurningu er enn ósvarað hvort það brjóti í bága við Árósasamninginn að taka úr sambandi framkvæmdaleyfi sem er í tilteknu ferli. Það er í raun vandinn sem kemur mér á óvart að lögfræðiálitið skuli ekki taka á og ég tel að sé algjörlega ósvarað.

Hin spurningin sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðar afturvirknina. Í álitinu er einnig aðeins fjallað um það hvort hið nýja bráðabirgðaákvæði sem setja á í náttúruverndarlög feli í sér afturvirkni sem brjóti í bága við meginreglur um afturvirkni laga. Ekki er skoðað hvort frumvarpið í heild, sem felur sannarlega í sér beina íhlutun í málsmeðferð, feli í sér afturvirkni sem ekki standast þessar meginreglur. Það er líka athugasemd sem ég vil gera við lögfræðiálitið og tel að sé ekki fjallað um með viðhlítandi hætti og geri það að verkum að frumvarpið standi á enn veikari grunni en ráðherrann gerir grein fyrir í framsögu sinni.

Loks langar mig að spyrja ráðherrann, og þá erum við að spyrja um þrennt, í fyrsta lagi Árósasamninginn, í öðru lagi afturvirknina, hvort öðrum ferlum sé lokið, þ.e. því eignarnámi sem nauðsynlegt er til að hægt sé að ljúka framkvæmdinni gagnvart landeigendum.