145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:26]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta sé leiðindamál en ég held að ég hætti þá að vera sammála, þ.e. um restina. Ég er sérstaklega ekki sammála því sem sagt var um að við séum að fúska með lög. Þvert á móti erum við að bregðast við grafalvarlegri stöðu með mjög ábyrgum hætti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að í þessu máli, sem kemur inn á síðustu dögum þingsins, höfum við leitað allra leiða til að leysa úr því án þess að grípa þurfi til lagasetningar, einmitt vegna þess að þetta er sú leið sem er allra síðasti möguleikinn sem við höfðum á borðinu. Þetta ferli er u.þ.b. tíu ára. Það er búið að fara í gegnum alla þá ferla sem við höfum í lögum. Íbúum, öllum hagsmunaaðilum, náttúruverndarsamtökum, öllum, hefur verið veitt aðild að þessu máli í tíu ár, þetta hefur farið í gegnum allt. Við erum komin á þann stað að við erum að leggja hornstein að virkjuninni núna. Það er byrjað að reisa virkjunina. Hvað sem mönnum kann að finnast um ívilnanir eða verkefni af þessum toga þá er þegar farið að byggja. Vegna hvers? Vegna þess að löggjöfin og löggjafinn, núverandi og þáverandi ríkisstjórn, samþykktu þetta ferli með lögum. Þeim lögum og þeim orðum og þeim skuldbindingum verður að vera hægt að treysta. Það sem er óásættanlegt er að lög séu sett síðar í ferlinu sem hafa áhrif á verkefni sem er búið að vera tíu ár í vinnslu. Það er það sem við (Forseti hringir.) erum að leiðrétta og bregðast við núna.