145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:46]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að árétta: Stefna stjórnvalda hlýtur að koma fram í því hvernig landið er til að mynda kynnt til væntanlegra fjárfesta. Þar liggur þingsályktunin sem hv. þingmaður átti þátt í að afgreiða hér í gegnum þingið og var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd á sínum tíma. Hún liggur fyrir sem stefna stjórnvalda. Þar er ekki minnst einu orði á stóriðju.

Þau verkefni sem hv. þingmaður nefnir hér og bendir á eru ekki tilkomin vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar heldur eru það fyrirtæki sem koma hingað og hafa áhuga á að setja þessa starfsemi á laggirnar. Um það fer samkvæmt almennum lögum og ekki er verið að sækja slík verkefni með einum eða öðrum hætti.

Þessu vildi ég koma á framfæri og ítreka að stóriðjustefna er hvergi skrifuð, hvorki í stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar né annars staðar.